Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing
Brekkuskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.  Skólayfirvöld, starfsfólk, foreldrar og nemendur Brekkuskóla lýsa því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verður liðið í skólanum.

Hvað er einelti?
Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.

Eineltisáætlun - til hvers?
 Til að:

  • fyrirbyggja einelti
  • bæta líðan og öryggi nemenda
  • bregðast við grun um einelti á fullnægjandi hátt

Hvernig gerum við það?
Með fræðslu. Nemendur fá kynningu á áætlun gegn einelti í skólanum: Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki við að efla samskipti innan bekkja. Reglulegir bekkjafundir verði í hverjum bekk þar sem rædd eru málefni bekkjarins (starfsfólk sjá 6. kafla í handbók um Olweusarkerfið). Umsjónarkennarar sjái um reglubundna fræðslu um einelti í sínum bekkjum. Til staðar í hverri bekkjarstofu verði veggspjald sem sýni "eineltishringinn" sem grípa má til. Umræður fari fram um eineltishringinn að minnsta kosti einu sinni á hverju skólaári. 
Skólastjórnendur eru ábyrgir fyrir fræðslu meðal starfsfólks með starfandi eineltisteymi sem í sitja skólastjórar, deildarstjórar, námsráðgjafi og fulltrúar kennara.