Foreldrarölt

Foreldrarölt - til hvers?
Tilgangurinn með foreldrarölti er að varna því að unglingar lendi í vanda og koma í veg fyrir hópamyndanir eftir löglegan útivistartíma. Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman hefur róandi og fyrirbyggjandi áhrif. Með þessu minnkum við líkurnar á að unglingarnir lendi í aðstæðum sem ógna þeim eða hræða. Slík nærvera gefur unglingunum líka tækifæri til að leita aðstoðar fullorðinna ef á þarf að halda.

Á ég að gæta bróður míns?
Margir foreldrar hugsa sem svo: Barnið mitt er ekki úti á kvöldin. Ég sé um minn ungling og af hverju ætti ég að vera að eyða tíma mínum í að passa annarra manna börn?
Við þessu er einfalt svar:

Með því hefur þú áhrif á það félagslega umhverfi sem þú og barnið þitt býr við. Því færri sem nota vímuefni, eru lagðir í einelti eða beittir ofbeldi af öðru tagi, því betra og öruggara er það umhverfi sem unglingurinn þinn býr við. Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi, hættum þess og hvar unglingar geta haft athvarf til neyslu óæskilegra efna og hópamyndunar.

Nærvera fullorðinna hefur áhrif:
Ósætti milli einstaklinga eða hópa þróast síður yfir í alvarlegt ofbeldi 

  • Drykkja eða önnur vímuefnaneysla fer síður fram þar sem fullorðnir eru nærstaddir. 
  • Þeir sem selja áfengi eða önnur vímuefni láta síður sjá sig ef fullorðnir eru til staðar.

Hvernig á að hegða sér á foreldrarölti?
Við eigum að vera sýnileg. Merkjum okkur með barmmerkjunum. 

  • Við þurfum að vera til staðar ef unglingarnir leita til okkar en forðumst að stjórna þeim. 
  • Við þurfum að geta hlustað og leiðbeint án þess að stjórna. 
  • Við eigum helst aldrei að vera færri en fimm saman. 
  • Við hringjum á lögreglu ef upp koma árekstrar, ofbeldi, slys, vímuefnaneysla og – sala eða annað sem krefst afskipta. Tökum fram að við erum foreldrar á rölti. 
  • Við ræðum ekki málefni einstaklinga sem við reynum á foreldrarölti við óviðkomandi.

Kaupum ekki áfengi handa unglingum!

Unglingar og umhverfi þeirra
Unglingurinn stendur á þröskuldi fullorðinsáranna en er enn með annan fótinn í barnæskunni. Flestir unglingar fara klakklaust í gegnum þessi mótunarár. En ekki allir. Það er margt sem kallar, sumt jákvætt, annað neikvætt og umhverfið hefur mikil áhrif á valið. Margir unglingar umgangast fullorðna takmarkað og verja mestum tíma sínum með jafnöldrum. Þeir eru forvitnir og vilja gjarnan prófa ýmislegt. Þar á meðal eru vímuefni. Þeir sem stunda sölu á vímuefnum vita að margir unglingar eru auðveld bráð. Þeir sækja stíft í þennan hóp með von um skjótfengan gróða og trygga viðskiptavini til lengri tíma.

Unglingarnir okkar eru í hættu og við henni verðum við að bregðast. Ein leiðin er að taka þátt í foreldrarölti.

Staðreyndir um vímuefni og ofbeldi
Rannsóknir sýna bein tengsl á milli vímuefnaneyslu og ofbeldis. Því meirasem unglingar nota vímuefni eru meiri líkur á að þau beiti eða séu fórnarlömb ofbeldis. Á þetta bæði við um pilta og stúlkur.

  • Íslensk ungmenni lenda í meiri vandræðum vegna eigin áfengisdrykkju en jafnaldrar þeirra í öðrum Evrópulöndum. Má þar nefna ógætilega og óæskilega kynlífsreynslu, þau verða oftar fyrir ránum og þjófnuðum, eru í meiri slysahættu og lenda frekar í slagsmálum. 
  • Því yngri sem unglingar eru þegar þeir hefja neyslu áfengis því alvarlegri eru vandamálin sem henni fylgja þegar fram í sækir.

Verum vel heima í útivistarreglunum og samþykkjum ekki foreldralaus samkvæmi!

(af vef Heimilis og Skóla, http://www.heimiliogskoli.is/)