Viku- og heimavinnuáætlanir

Viku- og heimavinnuáætlanir

Lestur á alltaf að vera hluti af heimanámi barna, sérstaklega er þetta mikilvægt meðan þau eru að ná tökum á lestrinum. Gert er ráð fyrir að allir nemendur lesi heima daglega. Mikilvægt er að einhver fullorðinn hlusti og ræði textann við barnið til að efla skilning þess á textanum. Rannsóknir sýna að áhugi fullorðinna á heimalestri barnanna skilar sér í aukinni lestrarfærni nemandans.

 

Stefna skólans er að heimanám verði mjög hóflegt og í samráði við forráðamenn nemenda. Áhersla er lögð á að ætíð sé skýrt markmið með heimanáminu og að það styðji við þau markmið sem verið er að þjálfa hverju sinni. Heimanám á aldrei rétt á sér eingöngu heimanámsins vegna. Markmið með heimanámi geta verið að æfa lestrarfærni nemenda, að þjálfa enn frekar og rifja upp atriði sem lögð hafa verið inn í skólanum og að veita foreldrum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með námi barna sinna. Hjá eldri nemendum getur einnig verið um að ræða að þróa námsvitund og sjálfstæði í vinnubrögðum og að nemendur öðlist smátt og smátt færni í að undirbúa sig fyrir kennslustundir. Kennarar í hverri námsgrein í 7. - 10. bekk skipuleggja heimanám nemenda og skrá það í Mentor.