Hollráð

Nokkur hollráð til foreldra nemenda í Brekkuskóla

  • Fylgist vel með skólastarfinu
  • Sýnið skóla barnsins ykkar áhuga
  • Setjið barninu skýr mörk og einfaldar reglur
  • Virðið útivistarreglur
  • Hafið samband ef þið hafið minnsta grun um einelti
  • Takið virkan þátt í foreldrastarfi skólans
  • Ekki hika við að hafa samband ef ykkur vantar upplýsingar
  • Hafið hugfast að hrós og hvatning skila bestum árangri

Stuðningur við nám barna

Hvernig geta foreldrar stutt við nám barna sinna á sem bestan hátt er spurning sem stundum er spurt.  Í Bandaríkjunum hefur þetta verið rannsakað mikið á undanförnum árum. Þar sýna samantektir úr 51 rannsókn, á árabilinu 1995-2002 að börn foreldra sem láta sig skólastarfið miklu varða (students with involved parents), eru mun líklegri til aðfá góðar einkunnir og sækjast eftir krefjandi viðfangsefnum, stunda skólann betur, hafa betri félagsfærni, sýna betri hegðun og aðlagast betur, standast sín próf og halda áfram í framhaldsnám.

Þetta eru að sjálfsögðu allt atriði sem við viljum sjá hjá börnunum okkar en hvernig geta foreldrar hjálpað til. Hér eru nokkrir punktar sem rannsóknir hafa sýnt að skipta miklu máli: 

1. Vertu viss um að barnið þitt fari í skólann tilbúið til að læra

Á morgnana þegar verið er að flýta sér út gæti barnið þitt gleymt að borða morgunmat eða gleymt heimavinnunni heima. Dagurinn byrjar miklu betur ef barnið tekur til í töskuna kvöldið áður, fær næga hvíld og góðan morgunmat.

2. Hafðu tíma fyrir heimavinnu

Settu upp vinnusvæði með góðri lýsingu og orðabók, takmarkaðu sjónvarpsgláp og tölvunotkun til að vera viss um að heimavinnan sé unnin. Gerðu  lestur að daglegum hlut. Börn sem hafa „enga heimavinnu“ geta alltaf farið yfir það sem unnið var í skólanum eða lesið bók sér til ánægju. Foreldrar geta alltaf óskað eftir heimanámi fyrir sitt barn. Heimanám er þá sett upp í samráði við foreldra og nemendur.

3. Fylgstu með námsárangri barnsins þíns

Ekki bíða eftir því að barnið fái einkunnarspjöldin til að sjá hvernig barni þínu gengur. Mættu á foreldrafundi og kynningarfundi til að heyra frá kennurunum hvernig starfið gengur og hvernig barninu gengur og ekki hika við að tala við kennara til að finna út hvort barnið fylgi kennsluáætlunum. Fylgstu með heimanáminu og skoðaðu upplýsingar um ástundun og árangur barnsins reglulega.

4. Þegar vandamál koma upp, leystu það með skólanum fyrir hönd barnsins

Ef barnið þitt á í vandræðum reyndu að komast að öllum staðreyndum áður en þú dregur ályktanir. Talaðu við kennarana til að búa til áætlun um að leysa vandann. Kennarar meta foreldra sem vinna með skólanum að lausn mála. Barnið þitt á betri möguleika á að standa sig vel ef þú og kennararnir eruð samstíga.

5. Mættu á skólasamkomur

Að mæta á skólasamkomur og aðra viðburði sem skólinn stendur fyrir sýnir barninu að þú metur skóla þess. Í 10 ára rannsókn á 20.000 nemendum, fann Laurence Steinberg það út að aðeins 1/5 foreldra mætir á skólasamkomur. Rannsóknin sýnir að þeir sem gera það eiga miklu meiri möguleika á að barninu þeirra gangi vel í skóla.

6. Fylgstu með skólasamfélaginu

Skólamál eru sífellt í umræðunni og snerta alla. Að fylgjast með og taka afstöðu  eykur vitund foreldra á skólastarfinu og þeir verða öflugri talsmenn skólans.

Margar leiðir eru fyrir foreldra til að hjálpa þeim að fylgjast með skólastarfi Brekkuskóla. Hér á vefsíðu skólans www.brekkuskoli.is má m.a. nálgast sjálfsmat skólans, ytra mat og innra mat s.s. matsgögn og skýrslu .