Aðalfundur í júní 2010

Aðalfundur Foreldrafélag Brekkuskóla skólaárið 2009-2010.

Haldinn í Brekkuskóla 01/06/2010 kl: 18:00

Mættir af stjórn: Gísli Einar Árnason ritari (GEÁ), Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir (FJS), Ester Jónasdóttir (EJ), Magni R. Magnússon formaður (MRM), Árni Jón Erlendsson (ÁJE), Bóthildur Sveinsdóttir gjaldkeri (BS), Drífa Þórarinsdóttir (DÞ)

Fjarverandi: Valdís Jónsdóttir (VJ)

Einnig mættir skólastjórnendur, Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri og Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri.  Auk þeirra 9 foreldrar í Brekkuskóla, sem gerir um 1% mætingu foreldra í BrekkuskólaJ

1.     Skýrsla stjórnar foreldrafélagsins flutt af MRM.

“Ný stjórn tók við í Foreldrafélagi Brekkuskóla síðastliðið vor og var fyrsti fundurinn haldin fyrir skólalok vorið 2009 og línur lagðar.  Haldnir hafa verið fundir reglulega í allann vetur og eru þeir öllum foreldrum opnir hvort sem þeir eru í stjórn eða ekki.  Allar fundagerðir eru svo settar inn á heimasíðu foreldrafélagsins og hvet ég foreldra til þess að kíkja inn á hana -www.brekkuskoli.is/foreldrafelag

Verkefni vetrarins voru nokkuð hefðbundin.  Í upphafi vetrar var foreldrahandbókinn uppfærð, einnig var haldið áfram með Rýmið sem fyrri stjórn var vel á veg komin með.  Keypt voru leiktæki og vald yfir leiktækjum og sett í hendurnar á nemendunum.  Þeir voru einnig ábyrgir fyrir umgengni.  Árni hafði annað augað á framgangi mála og hefur gripið inn í ef í óefni hefur stefnt. Þessi tilraun hefur gengið að morgue leiti vel en einnig hafa komið í ljós ýmsir hnökrar varðandi umgengni við leiktæki og húsgögn.

Við fengum óskalista frá skólastjórnendum um ýmislegt þeir báðu foreldrafélagið að styrkja fjárhagslega. Var ákveðið að kaupa 5 myndavélar og færa skólanum að gjöf, þar sem okkur fannst það nýtast nemendum og kennurum á öllum skólastigum vel. Öllum öðrum beiðnum um beinan fjárstuðning við skólann var hafnað.

Í tengslum við vel heppnaða árshátíð styrkti foreldrafélagið nemendur í að fá Aðalstein Bergdal til þess að halda utanum ýmis verkefni sem nemendur skólans unnu að og tókst það með miklum ágætum. Einnig keypti foreldrafélagið sýningu um Karíus og Baktus, sem sett var upp af Leikfélagi M.A fyrir yngstu nemendur skólans. Hafði sú sýning bæði skemmtana- og forvarnargildi.

Foreldrafélag Brekkuskóla kom að skipulagningu málþings um netöryggi og forvarnir í tölvuheimum, sem haldin var hér í sal skólans. Var mæting góð, í kringum 130 foreldrar mættu og hlustuðu á erindi og tóku þátt í pallborðsumræðum. Er það von okkar að þetta málþing sé aðeins byrjunin á frekara starfi á þessum vettvangi.

Við ljúkum svo árinu með því að fá Magna Ásgeirsson til þess að skemmta öllum nemendum og kennurum skólans í hádegisgrilli sem verður von bráðar.

Í lokin vil ég hvetja foreldra til þess að taka þátt í starfi foreldrafélagsins, því margar hendur vinna létt verk.”

2.     Reikningar foreldrafélgsins lagðir fram af BS.  Þeir samþykktir.

3.     Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri með erindi.

Segir skólastjórnendur vera vakandi yfir því ef kreppan er að bitna á börnunum, reynt er að grípa inn í og aðstoða ef t.d. börn þurfa að segja upp mataráskrift o.þ.h.  Segir rekstur skólans ganga almennt vel, var reksturinn innan fjárhagsramma fyrir árið 2009.  Erfitt hefur þó reynst að manna forfallakennslu á unglingastigi vegna fjárskorts.

Talar lauslega um breyttar kennsluaðferðir næsta árs í 8. bekk og nýjar áherslur í lestarkennslu 1. – 3. bekkjar.

Börnum fækkar í skólanum á næsta ári, ástæðan er að stór 10. bekkur er að útskrifast og fámennur 1. bekkur hefur skólagöngu næsta haust.

Rætt um skólaráð Brekkuskóla.  Á samráðsfundi með nemendaráði kom aðallega tvennt fram; unglingastig vantar skápa í skólann til að geyma yfirhafnir, kennslugögn og bækur.  Einnig kom fram frá nemdum að þau vilja hafa virka foreldrafulltrúa í bekkjunum á unglingastigi, þau sakna þess að hafa ekki meira foreldrastarf þar sem börn og foreldrar hittast ogera eitthvað skemmtilegt saman fyrir utan skólann.  Jóhann nefnir að það vantar foreldra í skólaráð.

Umræður spunnust um skólaferðalög, en Jóhanna hefur mikinn áhuga á því að foreldrar taki meiri þátt í þeim og fari með sem farastjórar.  Einnig að óskar hún eftir meiri þátttöku foreldra almennt í foreldrastarfi.

Rætt um heimsóknir foreldra í kennslustundir en Jóhanna tekur fram að foreldrar eru alltaf velkomnir.

4.     Guðmundur sjúkraþjálfari há Endurhæfingastöðinni kynnti verkefnið “Hreyfistrætó”.  Það gengur út á að hvetja börn til að ganga eða hjóla í skólann undir stjórn foreldra.  Foreldrar ganga þá fyrirfram ákveðna leið um sitt hverfi og börn bíða á þar til gerðum “stoppistöðum” og safnast saman og ganga saman í skólann.  FíSÞ er hvatningaraðili að verkefninu sem skipulagt yrði af foreldrafélaginu í samstarfi við skólann.  Foreldrafélagið er áhugasamt um að koma að þessu verkefni næsta haust.

5.     Kosning nýrrar stjórnar.  Tveir aðilar ganga úr stjórn, EJ og GEÁ.  Nýjir aðilar sem gáfu kost á sér í stjórn eru Agla (f. 2. bekk), Hafdís (f. 2. og 5. bekk), Héðinn (f. 4. og 8. bekk) og Sigmundur (f. 2. bekk). 

Vantar þá ennþá fulltrúa fyrir 1., 3. og 10. bekk næsta skólaárs.

Fleiri mál ekki rædd.

Fundargerð ritaði GEÁ