Góður og gagnlegur aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur foreldrafélags Brekkuskóla fór fram 25. september sl. Mæting á fundinn var mjög góð miðað við síðastliðin ár en rúmlega 50 manns mættu á fundinn. Skólastjórnendur og stjórn foreldrafélagsins þrýstu mjög á foreldra í ár að mæta á fundinn með fréttatilkynningum og formaður foreldrafélagsins mætti á skipulagða kynningarfundi í haust til að minna á fundinn.  Sigrún Sveinbjörnsdóttir, dósent við HA flutti erindi um mikilvægi virks samstarfs foreldra og skóla en rannsóknir sýna að gott samstarf þessara aðila hefur góð áhrif á námsárangur, viðhorf til skólans og líðan nemenda. Sigrún ræddi einnig um ábyrgð foreldra á börnum sínum og mikilvægi góðra samverustunda foreldra og barna.  Stjórn foreldrafélagsins vill sitja áfram en hvatti jafnframt fleiri til að koma í stjórn. Tvær mæður buðu sig fram til stjórnarstarfa þær Ragnheiður Halldórsdóttir og Bryndís María Davíðsdóttir. Tólf fulltrúar munu því sitja í stjórn í vetur en einnig fór fram kosning í embætti tveggja endurskoðenda og því embætti gegna nú Sigurður Jónsson og Helgi Svavarsson. Á fundinum var tillaga að nýju deiliskipulagi í kringum skólann rædd en fundurinn ákvað í kjölfar mjög góðrar umræðu að halda sérstakan fund um tillöguna mánudaginn 1. október kl. 20. Pétur Bolli Jóhannesson, skipulagsstjóri bæjarins mun mæta á fundinn og fara yfir tillöguna, taka á móti tillögum frá fundargestum og svara spurningum þeirra.  Stjórn foreldrafélagsins hvetur foreldra til að mæta á fundinn þar sem um er að ræða öryggi barnanna á leið í og úr skóla.