Hreyfistrætó í Brekkuskóla

Foreldrafélagið, í samstarfi við sjúkraþjálfara á Akureyri, kynnti verkefnið Hreyfistrætó fyrir foreldrum barna í 1. og 2. bekk þann 13. september síðastliðinn. Lagðar voru fram hugmyndir að því hvernig mögulegt væri að útbúa göngu - strætóleiðir /Hreyfistrætó og stuðla þannig að hreyfingu barna og auka öryggi þeirra í umferðinni á leið sinni í skólann. Það er hlutverk foreldra að leiða strætó áfram (1x til 2x á önn) og vera börnunum innan handar í umferðinni, hvetja börnin til að taka þátt í verkefninu og stuðla þannig að hreyfingu þannig að það verði barninu eðlilegt að ganga til skóla. Áhugi foreldra var greinilegur og því óskað eftir 5 foreldrum til að skipuleggja verkefnið, hvaða leiðir henta og finna hentugt skráningarkerfi. Þessi frábæri hópur hefur nú komið Hreyfistrætó af stað og eigum við þeim þakkir. Fjórar leiðir voru farnar í upphafi en ein leiðin hefur dottið út sökum þátttökuleysis foreldra og barna. Ákveðið var að prufukeyra verkefnið í 6 vikur og sjá hvernig gengur. Vonandi á Hreyfistrætó eftir að keyra áfram hér í Brekkuskóla en það veltur á okkur foreldrum, áhuga okkar og þátttöku. Foreldrafélagið hvetur alla þá foreldra sem hafa tök á að ganga með börnunum í skólann að skrá sig á vakt því margar hendur vinna létt verk. Áfram Hreyfistrætó !!!