Starfsmannastefna

Starfsmannastefna Brekkuskóla nær til allra starfsmanna skólans. Gildandi lög, reglur og kjarasamningar, eins og þau eru á hverjum tíma, mynda ramma um réttindi starfsmanna og skyldur.
Markmið starfsmannastefnunnar er að sjá til þess að Brekkuskóli sé aðlaðandi vinnustaður þar sem þróast fagþekking, verkkunnátta og mikill vilji til þess að þjónusta nemendur og foreldra , (að þroska þjónustulund starfsmanna).

Leiðarljós stjórnenda

  • að þjónusta skólans við nemendur og foreldra sé framúrskarandi og að þarfir þeirra sem með skilgreindum hætti eiga að njóta þjónustunnar hafi óskoraðan forgang
  • að þjónustan sé skilvirk en um leið hagkvæm og taki bæði tillit til þarfa þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta og þeirra sem kosta hana.
  • að dreifa ákvarðanatöku, valdi og ábyrgð meðal starfsmannna þannig að sjálfstæði þeirra og frumkvæði fái að njóta sín sem best.

Stjórnendur Brekkuskóla munu vinna markvisst að því að starfsfólkið sé ánægt á vinnustað sínum, að gagnkvæm virðing ríki milli starfsmanna og að samkennd og samhugur einkenni samskipti fólks innan stofnunarinnar. Reynt verður að láta starfsfólk finna til öryggis á vinnustað vegna þess að það hafi innsýn í og áhrif á þróun vinnustaðarins og starfsskilyrði.
Stjórnendur Brekkuskóla heita því að leggja sig fram um að allur aðbúnaður starfsfólks, hollustuhættir og öryggi sé í samræmi við þær kröfur sem heilbrigðis- og vinnueftirlit gera til aðbúnaðar á vinnustöðum, enda er um gagnkvæma hagsmuni að ræða. Jafnframt er starfsmönnum skylt að fylgja þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar hvað þessi atriði varðar. 
Stjórnendur Brekkuskóla munu leggja sig fram um að halda yfirvinnu innan hóflegra marka af  vinnuverndarástæðum og munu hvetja starfsfólk til hollra og heilsusamlegra lifnaðarhátta.
Stjórnendur Brekkuskóla munu leggja sig fram um að koma  til móts við þarfir starfsfólks sem af einhverjum ástæðum getur ekki mætt þeim skilyrðum sem sett eru á vinnustaðnum, s.s. með því að laga stundaskrár eins og kostur er að óskum starfsfólks, (sveigjanlegur vinnutími innan stundaskrármarka.)
Stjórnendur Brekkuskóla munu leitast við að umboð og ábyrgðarmörk starfsmanna og stjórnenda séu skýr, boðleiðir greiðar og upplýsingastreymi sé hindrunarlaust milli starfsmanna, stjórnenda, nemenda og foreldra. Lög og reglugerðir er varða starfsmenn og starfssemi skólans skulu vera öllum aðgengilegar.
Í skólanum skulu vera í gildi reglur og viðmiðanir, s.s. um vinnutíma, árangur í starfi, starfsáætlun skólans o.fl. sem starfsmenn skulu fylgja hverju sinni.
Starfsmönnum ber að fara eftir lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna, sýna heiðarleika og trúmennsku, vandvirkni og gæta fullrar þagmælsku um hvað eina sem þeir verða áskynja í starfi.  Þá skulu starfsmenn hafa í heiðri trúnað í samskiptum sínum hver við annan og vinnuveitanda sinn.
Stjórnendur munu leitast við að beita fyllstu sanngirni við að samræma kröfur starfsins og fjölskylduábyrgðar, t.d. vegna veikinda og ummönnunar barna.

Brekkuskóli skal verða reyklaus og er starfsmönnum óheimilt að hafa um hönd vímuefni af hverju tagi á vinnutíma. Skólinn mun leitast við að aðstoða starfsmenn sem eiga í vanda hvað þetta varðar eftir því sem kostur er.

Stjórnendur
Stjórnendum ber að leitast við að tileinka sér góða og árangursríka stjórnunarhætti. Þeir þurfa einnig að uppfylla þær skyldur að hafa fullnægjandi yfirsýn  yfir verksvið sitt og hafa hæfileika til að samhæfa störf starfsmanna þannig að settum  markmiðum skólans sé náð með hagkvæmum hætti, þó þannig að hagsmunir nemenda séu jafnan hafðir að leiðarljósi. Stjórnendum ber að hafa samráð við sem flesta af starfsmönnum um stefnu og starfshætti skólans. Þá ber þeim að hafa starfsþróunarsamtöl við hvern starfsmann að minnsta kosti árlega.

Nýir starfsmenn
Brekkuskóli leitast jafnan við að ráða sem hæfast starfsfólk til starfa og hefur sett sér það markmið að a.m.k. 90% starfsmanna hafi fagmenntun og full starfsréttindi.
Í Brekkuskóla er eins og í öðrum stofnunum Akureyrarbæjar gætt að jafnrétti við ráðningar í störf og í því sambandi er unnið í samræmi við jafnréttisáætlun skólans.
Brekkuskóli kostar kapps um að taka vel á móti nýju starfsfólki, hverjum nýjum starfsmanni er bent á handbók með helstu upplýsingum um starf skólans og hvert hann getur leitað ef hann þarf  á aðstoð að halda á starfsmannavef skólans. Stjórnendur funda með nýju starfsfólki og fer yfir helstu atriði með þeim í upphafi skólaárs og fylgir því eftir síðar á skólaárinu.

Starfsþróun
Í samræmi við stefnu bæjarfélagsins um að starfsfólk og vinnustaðir geti þróast til hagsbóta fyrir bæjarfélagið og neytendur, þá hefur sérstök endurmenntunaráætlun fyrir Brekkuskóla verið samin. Áætlunin tekur mið af þörfum skólans og hæfni hans til að takast á við fjölbreytileg viðfangsefni, þörfum nemenda og hagsmunum starfsmannanna á hverjum tíma.
Starfsmenn skulu hvattir til að auka fagþekkingu sína og öðlast m.a. þannig möguleika á starfsframa í samræmi við metnað og kunnáttu.

Launastefna
Stefna Akureyrarbæjar er sú að allir starfsmenn taki laun samkvæmt gildandi kjarasamningum og njóti þeirra bestu kjara sem viðkomandi samningur gefur hverju sinni, miðað við aldur og menntun.

Starfsferill.
Brekkuskóli sem og aðrir grunnskólar Akureyrarbæjar vill skapa starfsfólki sínu möguleika á samfelldum starfsferli. Taka skal tillit til aldurs og breytinga á persónulegum högum starfsmanna eftir því sem kostur er, s.s. vegna aukinnar reynslu og menntunar.
Opinber stefna Brekkuskóla sem og annarra stofnana Akureyrarbæjar er sú að almennir starfsmenn láti af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða sjötugir.