Skipulag skólastarfsins

Áherslur í skipulagi kennslu
Í Brekkuskóla er leitast við að hafa námið fjölbreytt og skapandi og að starfsgleði setji mark sitt á allt skólastarfið. Með einstaklingsmiðaðri markmiðssetningu og námsmati og aukinni fjölbreytni í framkvæmd þessara atriða verður námið samfellt. Áhersla er lögð á að gera nemendum ljóst hvaða kröfur eru gerðar til þeirra, kenna þeim að gera áætlanir og vinna eftir þeim. Í Brekkuskóla er lögð rík áhersla á samstarf og samvinnu skólasamfélagsins. Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki í samstarfi við nemendur og heimili þeirra.
Lögð er áhersla á virk samskipti við heimilin og samstarf við þau um markmiðssetningu nemenda.  Þá standa umsjónarkennarar fyrir öflugu starfi innan hvers bekkjar með það að markmiði að skapa samkennd, öryggi og vellíðan í nemendahópnum.

Við leggjum áherslu á forvarnarstarf og heilbrigða lífshætti. Í 1. - 6. bekk fer kennsla námsgreina fram að mestu hjá umsjónarkennara í öllum almennum kennslugreinum í svokölluðum bekkjartímum. Sérgreinakennsla fer fram í öllum árgöngum í íþróttum, myndlist, textílmennt, upplýsinga- og samskiptatækni, tónmennt og heimilisfræði. Í 5. bekk bætast sérgreinatímar við í tungumálum. Í 7. - 8. bekk starfar kennarateymi sem skiptir með sér kennslu. Umsjónarkennari kennir flestar greinar í sínum umsjónarhóp en kennir jafnframt eitt til tvö fög í öðrum árgangi. Þarna er ákveðin sérhæfing í gangi og er það liður í að brúa bilið milli kennsluhátta sem taka við í níunda- og tíunda bekk. Í 9. -10. bekk skipta kennarar með sér námsgreinum eftir sérfræðiþekkingu sinni en hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara.

Við skipulag kennslu er haft að leiðarljósi að mæta námsþörfum nemenda, að þeir tileinki sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf og öðlist þá hæfni sem stefnt er að í námi. Lögð er áhersla á að koma til móts við nemendur á forsendum hvers og eins. Viðfangsefni og verkefni eru valin af kostgæfni, hæfilega krefjandi til að gera öllum nemendum kleift að ná hámarks námsárangri. Í Brekkuskóla er markvisst reynt að stuðla að samvinnu nemenda. Nemendum er gerð grein fyrir viðfangsefnum og markmiðum þeirra og leiðum til að uppfylla þau. Á grundvelli sameiginlegra gilda sköpum við hvetjandi námsumhverfi þar sem notaðar eru fjölbreyttar náms - og kennsluaðferðir.

Nemendur í öllum árgöngum eiga námsferilsmöppu sem fylgir þeim alla skólagönguna í Brekkuskóla. Nánar er fjallað um námsferilsmöppur í kaflanum um námsmat annars staðar hér á vefsíðunni.

Gerð námsáætlana og kennsluaðferðir
Við gerð námsáætlana er Aðalnámskrá grunnskóla lögð til grundvallar. Kennarar viðkomandi námsgreina setja upp námsáætlun árganga eða bekkja sem tekur mið af stefnu skólans og hugmyndafræði um einstaklingsmiðaða kennsluhætti. Námsáætlanir Brekkuskóla má m.a. nálgast á heimasíðu skólans.  Þar setja kennarar fram markmið, námsefni, kennsluaðferðir og námsmat í hverri námsgrein. Við upphaf hverrar annar vinna kennarar einnig ítarlega kennsluáætlun fyrir hverja námsgrein. Í kennsluáætlunum eiga að koma m.a. fram þau efnisatriði sem kennd verða, tímarammi, ásamt skrá yfir námsefni.
Nemandi og foreldrar/forráðamenn setjast einnig niður með kennara á samtalsdegi í upphafi skólaárs og ræða einstaklingsmarkmið nemandans, áhugasvið og áherslur. Þau markmið og þær áherslur eru aftur ræddar í námsframvindusamtölum sem fara fram um miðjan vetur.
Einstaklingsmiðaðir kennsluhættir eru til í ótal myndum. Margar aðferðir við kennslu stuðla að einstaklingsmiðun. Má þar nefna samvinnunám, kennsluaðferðir sem byggjast á fjölgreindarkenningum, einstaklingsmiðað heimanám, námssamningar, efniskönnunarverkefni, þemanám, þyngdarskipt efni, kennsluforrit, vinna á svæðum eftir áhugasviði, jafningjakennsla, lausnarleitarnám og upplýsingatækni, samræðuaðferðir, sjálfstæð viðfangsefni, söguaðferðin og frjáls verkefni og val (valgreinar). Til að styðja við aðferðirnar eru notuð fjölbreytt námsgögn og er skólinn vel búinn af rituðu efni, ýmsum tækjum og tæknibúnaði. Það er undir kennurum komið hvaða aðferðum þeir beita í kennslunni en meginmarkmiðið er að hver nemandi fái verkefni sem talið er hæfa honum og séu miðaðar við forsendur hans.