Samræða skólastiga

Brekkuskóli er í samstarfi við leikskólann Hólmasól, Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri.

Samræða leik- og grunnskóla.
Markmiðið er einkum að koma til móts við þarfir 5 ára barna leikskóla og foreldra þeirra við undirbúning grunnskólagöngu barnsins. Samstarfið hefur verið ríkulegt og miðað að því að fá sem gleggsta mynd af því hvað komi nemandanum og foreldrum að mestu gagni.

Samstarfið einkennist af gagnkvæmri virðingu, uppfræðslu, miðlun upplýsinga, lestur efnis sem tengist viðfangsefninu ofl.

Á haustönn fara nemendur 1. árgangs í heimsókn í leikskólann Hólmasól. Kennaraskipti eru skipulögð sem og heimsóknir leikskólabarna í Brekkuskóla á vorönn.

Á vorönn er markmiðið að fá 5 ára nemendur í heimsókn í þrjú skipti og síðan verður þeim boðið í vorskóla í tvo daga í maí. Foreldrum þessara barna er jafnframt boðið til samstarfs á vorönn og einnig er hugmyndin að útvíkka samstarfið við þá. Teljum við afar brýnt að samstarfið fari vel fram og auðveldi börnunum að stíga sín fyrstu skref í Brekkuskóla. Skóladagatal samstarfsskólanna er unnið í samvinnu.

Samræða grunn- og framhaldsskóla miðar markvisst að því að auka sveigjanleika í lengd grunnskólagöngu nemenda og gefur þannig færi á fljótandi skilum milli þeirra skólastiga. Með nýjum reglum um samræmd próf hefur samstarf milli skólastiganna farið vaxandi.

Öllum nemendum í 10. bekk Brekkuskóla er boðið í heimsóknir bæði í Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri. Í þessum heimsóknum eru námsbrautir skólanna kynntar, skólarnir skoðaðir og farið yfir inntökuskilyrði hverrar deildar.

Í þessum heimsóknum fá nemendur einnig kynningu á því félagslífi sem stendur nemendum framhaldsskólanna hér í bæ til boða innan skólanna.  Auk þess hafa náms- og starfsráðgjafar Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Laugum komið með skólakynningar og greint frá inntökuskilyrðum fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.  Samstarf við námsráðgjafa framhaldsskólanna hefur verið gott, auðvelt er að fá tíma fyrir nemendur okkar hjá þeim ef þeir óska eftir því.

Nemendur eiga kost á að stunda fjarnám við framhaldsskóla og geta þeir fengið þá áfanga metna sem valgrein í Brekkuskóla.