Læsisstefna Brekkuskóla

Inngangur
Læsi er grunnur alls náms og felur m.a. í sér lestur, skilning, ritun, hlustun og tjáningu. Mikilvægt er að allir nái góðum tökum á þessum þáttum. Í Læsisstefnu Brekkuskóla birtast áherslur skólans í lestrarkennslu og lestrarþjálfun. Þar er að finna hagnýtar upplýsingar og leiðir fyrir kennara og forráðamenn til að aðstoða nemendur. Í læsisstefnunni er fjallað um mismunandi kennsluaðferðir í lestri, matstæki, stuðning ef markmið nást ekki, eftirfylgni og læsismenningu. Mikilvægt er að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til sem flestra. Á yngsta stigi er unnið út frá Byrjendalæsi og hljóðaaðferð og einnig er stuðst við PALS aðferðina. Á mið- og elsta stigi er áfram unnið með PALS og aukin krafa gerð til skilnings og lestrarfimi, ásamt því að áhersla er lögð á vandaðan upplestur. Á öllum stigum þarf að styrkja áhugahvöt nemenda á margvíslegan hátt með því að tryggja að þeir hafi val um fjölbreytt lesefni og góðar lestrarfyrirmyndir. 

Áhersluþættir og vinnubrögð
Í 1.-3. bekk
er grunnurinn lagður að læsisnámi nemenda. Unnið er með lestur, hljóðkerfisvitund, hlustun, ritun, skrift, orðaforða, setningabyggingu og málfræði. Mikilvægt er að nemendur fái verkefni við hæfi. Áhersla er lögð á daglega þjálfun, bæði í skóla og heima svo nemendur nái góðu lestrarlagi, lestrarhraða og lesskilningi. Í allri vinnu er mikilvægt að jákvætt viðhorf til lestrar sé haft að leiðarljósi.
Í 4.-6. bekk er lögð áhersla á áframhaldandi þjálfun í lestri m.a. með PALS aðferðinni. Lestur er samþættur við allar námsgreinar og nemendur þjálfaðir í að lesa sér til skilnings. Áhersla er lögð á aukna lesfimi og gott lestrarlag. Nemendur þjálfast í upplestri og tjáningu og í 4. bekk taka þeir þátt í Litlu upplestrarkeppninni. Mikilvægt er að viðhalda jákvæðu viðhorfi til lestrar og áhersla lögð á yndislestur og hlustun. Áhersla er lögð á að skapa jákvætt viðhorf til lestrar. 
Í 7. -8. bekk er áhersla lögð á hljóðlestur og upplestur. Nemendur eru hvattir til að velja sér fjölbreytt lesefni bæði ljóð og laust mál. Áfram er unnið með þá þætti sem stuðla að góðum lesskilningi, lesfimi og bættu lestrarlagi. Æfð er framsögn, tjáning, virk hlustun og samræður. Í 7. bekk taka nemendur þátt í Stóru upplestrarkeppninni. 
Í 9.-10. bekk er markmið lestrarkennslunnar að gera nemendur hæfari til að tjá sig í ræðu og riti. Lögð er áhersla á aukinn orðaforða og að glæða áhuga nemenda á móðurmálinu. Einnig er lögð áhersla á að efla lesfimi nemenda bæði í hljóð- og raddlestri. Nemendur vinna fjölbreytt verkefni sem reyna á læsi í víðtækum skilningi, áhersla er lögð á að þeir sýni sjálfstæð vinnubrögð, beiti gagnrýninni hugsun og öðlist jákvætt viðhorf til lestrar.

Heimalestur
Góð þjálfun verður aldrei ofmetin. Hún er grunnur læsis og því er mikilvægt að nemendur lesi daglega bæði í skóla og heima. Nemendur sem eru að ná tökum á grunnfærni lestrar þurfa reglulega endurgjöf á heimalestur frá forráðamönnum og kennurum. Ef heimalestri er ekki sinnt er haft samband við heimilin. Í 1.-4. bekk þurfa nemendur að lesa upphátt daglega fyrir forráðamenn. Það sama á einnig við um eldri nemendur sem ekki hafa náð almennum viðmiðum síns árgangs. Til að viðhalda færninni þurfa nemendur að lesa reglulega bæði upphátt og í hljóði og þjálfun þarf líka að eiga sér stað yfir sumartímann. Forráðamenn bera ábyrgð á að vel takist til með lestrarnámið því regluleg þjálfun skilar bestum árangri. 

Yfirlit yfir matstæki
Í Brekkuskóla er stuðst við Lesferil Menntamálastofnunar til að meta færni nemenda í lesfimi. Lesfimi er samsett færni sem felur í sér leshraða, lestrarnákvæmni og lestrarlag. Lesfimiviðmið eru almenn færniviðmið sem gegna því hlutverki að setja nemendum markmið sem þeir þurfa að ná í hverjum árgangi. Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Sterk tengsl eru milli lesfimi og lesskilnings og með því að bæta lesfimi nemenda eflist skilningurinn um leið. Lesfimikannanir eru lagðar fyrir þrisvar á ári, í september, janúar og maí. Meðfylgjandi tafla sýnir lesfimiviðmið hvers árgangs í maí talin í orðum á mínútu.
Aldur nemenda: Lágmarksviðmið - Almenn viðmið - Metnaðarfull viðmið 

1. bekkur 20- 55- 75
2. bekkur 40- 85- 100
3. bekkur 55- 100- 120
4. bekkur 80- 120- 145
5. bekkur 90- 140- 160
6. bekkur 105- 155- 175
7. bekkur 120- 165- 190
8. bekkur 130- 180- 210
9. bekkur 140- 180- 210
10. bekkur 145- 180- 210

Skimunarprófið Hljóm - 2 er lagt fyrir í öllum leikskólum Akureyrar. Kennarar 1. bekkjar vinna með niðurstöður þess í byrjendakennslunni.
Lesskimunarpróf Lesferill - lesskimun er lagt fyrir í 1. bekk. 
Orðarún er lesskilningspróf sem lagt er fyrir nemendur í 3.-8. bekk að hausti og vori. Þessi próf verða notuð þar til ný lesskilningspróf koma frá Menntamálastofnun.
Skimunarprófið GRP14 er lagt fyrir alla nemendur í 9. bekk.
Samræmd próf eru lögð fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk.

Stuðningur og eftirfylgni:
Í lestrarnámi er stöðug þjálfun afar mikilvæg. Þar reynir á samvinnu heimila og skóla. Nemendur þurfa að lesa upphátt daglega bæði heima og í skóla. Þeir sem sýna slaka færni eða ná ekki lágmarksviðmiðum í lesfimi hvers árgangs fá aðstoð sem unnin er í samvinnu kennara, sérkennara og foreldra. Ef lágmarksviðmiðum er ekki náð í 3. bekk fara nemendur á lestrarnámskeið hjá sérkennara. Ef nemendur hafa ekki náð lágmarksviðmiðum við lok 4. bekkjar eða síðar á skólagöngunni er sótt um LOGOS lestrargreiningu. Úrræði eru ákvörðuð út frá niðurstöðum hennar í samvinnu kennara og sérkennara.
Framhaldsskólar óska eftir nýlegum niðurstöðum greininga og þess vegna er sótt um LOGOS endurmat í 9. eða 10. bekk áður en nemendur með skilgreinda lestrarörðugleika útskrifast úr grunnskóla. 

Kennsluaðferðir:
Byrjendalæsi er kennsluaðferð sem er notuð í 1. - 3. bekk. Lögð er áhersla á hópvinnu jafnt sem einstaklingsvinnu þannig að nemendur á mismunandi getustigi geti unnið saman. Unnið er með tal, lestur, ritun og hlustun sem taka til allra þátta móðurmálsins. Áhersla er lögð á að nota góðar barnabækur við vinnuna. Jafnhliða byrjendalæsinu er hljóðaaðferðin notuð. Með henni þjálfast nemendur í að umskrá bókstafi yfir í hljóð og tengja hljóð stafanna saman í orð. Lögð er áhersla á að lesa stutta, einfalda, merkingarbæra texta sem stigþyngjast eftir því sem nemendur þjálfast í lestrinum.
Í Brekkuskóla er kennsluaðferðin PALS (Peer Assisted Learning Strategies) Pör Að Læra Saman einnig notuð. PALS er lestrarþjálfunaraðferð þar sem nemendur vinna tveir og tveir saman og fara í gegnum ákveðið skipulagt ferli. Ferlið felur í sér paralestur, endursögn, að draga saman efnisgreinar og forspá. Gott er að nota þessa aðferð í öllu námi. Leiðir sem tengjast aðferðinni Orð af orði eru notaðar á mið- og unglingastigi. 

Lestrarmenning:
Læsi er lykill að lífsgæðum og því er mikilvægt að búa til góða lestrarmenningu. Í Brekkuskóla leggjum við mikla áherslu á jákvætt viðhorf til lestrar, að nemendur hafi ánægju af lestri og þjálfist í að velja sér lesefni við hæfi og sem vekur áhuga. Vel búið skólabókasafn leikur stórt hlutverk í allri lestrarmenningu. Þangað sækja nemendur lesefni og gefst kostur á að taka þátt í lestrarhvetjandi viðfangsefnum sem miðast við ólík áhugasvið. Yndislestur felur bæði í sér að nemendur lesi sjálfir og að lesið sé fyrir þá.  Mikilvægt er að lestrarstundirnar séu markvissar og vel nýttar.
Nestislestur þar sem kennari les upphátt fyrir nemendur í nestistíma er mikilvægur þáttur í lestrarmenningu Brekkuskóla. Við það skapast tækifæri til að kynna margvíslegar bókmenntir fyrir nemendum, efla hlustun, tal, skilning og samræður. Nestislestur þarf að vera fastur liður hjá nemendum í 1.-7. bekk.