Stoðþjónusta

Umsjón með sérkennslu í skólanum hefur Helga Sigurðardóttir (helgasig@akmennt.is) í samstarfi við stjórnendur skólans.

Sérkennsla og kennsla með stuðningi
Sér- og stuðningskennsla í Brekkuskóla fer ýmist fram inni í bekkjardeildum eða í sérstökum sérkennslustofum. Allt fer þetta eftir eðli námsvandans hverju sinni og hvað nemandanum nýtist best. Í sér- og stuðningskennslu felst m.a.:

 • Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Tilgreind skulu langtímamarkmið með kennslunni.
 • Kennsla samkvæmt námsáætlun.
 • Skipuleg skráning og regluleg endurskoðun á námsáætlun og kennslu.
 • Gerð námsáætlunar fyrir nemendur í sér- og stuðningskennslu er að öllu jöfnu unnin í samstarfi viðkomandi kennara og sérkennara.

Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.  Sérkennsla felur í sérsniðin námsmarkmið, sérsniðið námsefni, námsaðstæður eru skoðaðar sérstaklega sem og kennsluaðferðir. Sér- og stuðningskennsla er skipulögð í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans. Í Brekkuskóla er gjarnan talað um "námskeið" í stað sérkennslu. Einstaklingsnámskrá er sniðin fyrir börn með sérþarfir og grundvallast hún á viðeigandi greiningum.

Hver ákveður hvaða nemendur fá sérkennslu eða kennslu með stuðningi?
Umsjónarkennarar funda vikulega með sérkennurum og fara yfir þá nemendur sem kennarar eru að hafa áhyggjur af námslega og félagslega. Sérkennarar í samstarfi við kennarana skipuleggja síðan sérkennslu og stuðning innan árganga og endurmeta þörfina á þessum fundum ef þurfa þykir.
Einstaka nemendum er síðan vísað í alhliða þroskamat og sérhæfðar greiningar til sérfræðiþjónustu skóla ef skólinn telur sig ekki geta metið stöðu þeirra með sínum mælitækjum. Þá fyllir umsjónarkennari  út tilvísunarblað sem fær umfjöllun í nemendaverndaráði. Ráðið setur síðan mál viðkomandi nemanda í lausnamiðaðan farveg.
Haldnir eru skilafundir með foreldrum og kennurum þegar greiningu er lokið. Fái nemandi greiningu sem segir að hann þurfi á frekari sérkennslu eða stuðningi að halda vinna skólastjórnendur að úrbótum á því í samráði við kennara og sékennara.

Hvernig leita má aðstoðar
Ef foreldrar hafa áhyggjur af námslegri framvindu barna sinna þá geta þeir snúið sér til umsjónarkennara barnsins, Steinunnar náms- og starfsráðgjafa eða beint til umsjónarmanns sérkennslu Helgu Sigurðardóttur. Ef um veruleg frávik er að ræða leitar skólinn aðstoðar frá Skólateymi Fjölskyldudeildar. Sú aðstoð getur verið í formi greiningar eða viðtala sem síðan geta leitt til sérkennslu eða stuðningskennslu. Engu barni er vísað til greiningar nema með samþykki foreldra eða forráðamanna.
Skipulag sérkennslu við Brekkuskóla.
Skipting sérkennslutíma milli nemenda er í höndum skólastjórnenda og umsjónarmanns sérkennslu í  samráði við umsjónarkennara. Forgangshópar í sérkennslu eru öðru jöfnu:

 •  Nemendur sem víkja verulega frá jafnöldrum sínum hvað varðar eðlilegan þroska, hegðun og tilfinningalega örðugleika. Áhersla er lögð á að nemendur tengist ákveðnum bekk, þótt nám þeirra fari að einhverju leyti fram utan bekkjar.
 •  Nemendur í yngstu bekkjum skólans í forvarnarskyni til þess að koma í veg fyrir örðugleika síðar á  námsferlinum.

Forgangsnámsgreinar sem sér- og stuðningskennsla er veitt í eru íslenska og stærðfræði. Þegar um er að ræða nemendur sem víkja að verulegu leyti frá jafnöldrum sínum í námsgetu í einhverjum greinum, er samin fyrir þá einstaklingsnámskrá í samvinnu við foreldra og samþykkis þeirra leitað.

Nemendaverndarráð                                                                                                                                                                                   Samkvæmt grunnskólalögum starfar nemendaverndarráð í Brekkuskóla. Fundi nemendaverndarráðs sitja skjólastjórnendur, skólahjúkrunarfræðingur og náms- og starfsráðgjafi. Fundað er vikulega í nemendaverndarráði. Annan hvern fund skiptast fulltrúar frá barnavernd og sérfræðiþjónustu skóla á að koma á fundina og fara yfir mál sem hafa borist þeim. Annan hvern fund á móti þeim skiptast sérkennarar skólans á að sitja fundina.

Námsráðgjafi                                                                                                                                                                                                             Við skólann starfar einn náms- og starfsráðgjafi í fullu starfi. Það er Steinunn Harpa Jónsdóttir (steinunnh@akmennt.is).

Fatlaðir nemendur
Reynt er að aðlaga skólagöngu fatlaðra nemenda sem mest að þeirra þörfum. Skólinn hefur gott aðgengi fyrir líkamlega fatlaða nemendur. Undirbúningur og móttaka fatlaðra nemenda er langtíma ferli sem margir koma að. Hver nemandi á sinn heimabekk og umsjónarkennara eins og aðrir. Þannig verða þeir eðlilegur hluti af heild og styrkjast þannig félagslega. Stefna skólans er sú að allir eiga að fá sín tækifæri óháð fötlun og markmiðið er að styrkja þá til sjálfsbjargar. Fulltrúi Fjölskyldudeildar boðar reglulega til funda, með umsjónarkennara, sérkennara/stuðningsfulltrúa og foreldrum fatlaðra nemenda. Þar er farið yfir stöðu mála og litið eftir hvort sett markmið hafa náðst og ný sett. Stuðningsfulltrúi starfar gjarnan með kennara fatlaðra nemenda.

Nýbúakennsla og kennsla tvítyngdra barna
Skólinn fær þjónustu frá Skóladeild vegna nýbúakennslu. Nemendur með annað móðurmál en íslensku fá því miður enga kennslu í sínu móðurmáli. Boðið er upp á viðbótartíma í íslensku fyrir nemendur á unglingastigi og yngri nemendur fá viðbótarstuðning inni í sínum bekkjum. Þeir sem enga íslensku kunna fá kennslu í minni hóp. Umsjón með kennslu nýbúa hefur Helga Hauksdóttur kennsluráðgjafi á Skóladeild.

Skimunaráætlun Brekkuskóla í læsi og stærðfræði

 • 1.bekkur: Skimunarprófið Tove Krogh lagt fyrir alla nemendur, bæði að hausti og vori. Lestrarprófið Læsi 1. hefti er lagt fyrir í nóvember og 2. hefti um miðjan febrúar. Stafakönnun er einnig lögð fyrir eftir mati kennara.
 • 1– 4. bekkur:Stafakannanir Rannveigar Löve( 1. – 10.) eru lagðar fyrir eftir þörfum. Ef nemendur sýna merki um erfiðleika við lestrarnámið eru  Aston Index og lestrarkannanir Rannveigar Löve lagðar fyrir þá. Mat á lestrargetu eftir Þorstein Sigurðsson eru einnig notuð ef þurfa þykir.
 • Lesfimi í öllum bekkjum lögð fyrir í september, janúar og maí
 • Læsi 1 – 1 nóvember - sérkennari/umsjónark.
 • Læsi 1 – 2 febrúar - sérkennari/ umsjónark.
 • Læsi 1 – 3 apríl - sérkennari/ umsjónark.
 • Ritunarþáttur Aston Index lagt fyrir 4. bekk á haustönn
 • Skimunarpróf Kristínar og Carlsen í lestri og stafsetningu lagt fyrir 5. bekk á haustönn
 • Gpr 14 skimunarpróf  í lestri og stafsetningu lagt fyrir 9. bekk í október
 • Talnalykill
 • Samræmd próf í 4., 7. og 9. bekk.

Sérfræðiþjónusta utan skólans
Brekkuskóli vinnur náið með skóladeild og fjölskyldudeild Akureyrarbæjar. Þar hafa skólar aðgang að sálfræðingum, sérkennsluráðgjöfum, félagsfræðingum, fjölskylduráðgjöfum ofl. Auk þessarar skipulögðu þjónustu á skólinn samskipti og samstarf við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, BUG teymi, Heilsugæslustöð, Greiningar- og ráðgjafastöð Íslands, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og fleiri.


Skólasmiðja                                                                                                                                                                                                            Skólasmiðja er óhefðbundið skólaúrræði sem fram fer í Rósenborg sem ætluð er einstaklingum sem geta ekki nýtt sér hefðbundinn skóla þrátt fyrir að leitað hafi verið leiða til úrbóta. Starfsmenn félagsmiðstöðva halda utan um Skólasmiðjuna.