Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing
Brekkuskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.  Skólayfirvöld, starfsfólk, foreldrar og nemendur Brekkuskóla lýsa því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verður liðið í skólanum.

Hvað er einelti? 
Við tölum um einelti þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti eins eða fleiri og viðkomandi á erfitt með að verja sig.

Um getur verið að ræða grín, högg eða spörk, uppnefni eða blótsyrði, niðurlægjandi og háðslegar athugasemdir, hótanir og rógburð sem er til þess ætlað að láta öðrum líka illa við viðkomandi.  Stríðni er einnig einelti ef hún er síendurtekin. Einelti getur verið beint eða óbeint. Neteinelti getur tekið á sig ýmsar myndir, t.d. að einstaklingur er niðurlægður, útilokaður frá félagahópnum og ýmsum brögðum beitt til að koma í veg fyrir að viðkomandi eignist vini. 

Eineltisáætlun - til hvers?
 Til að: 
          fyrirbyggja einelti
          bæta líðan og öryggi nemenda
          bregðast við grun um einelti á fullnægjandi hátt

Hvernig gerum við það?
Með fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum. Nemendur fá kynningu á áætlun gegn einelti í skólanum: Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki við að efla samskipti innan bekkja. Reglulegir bekkjafundir eru í hverjum bekk.  Umsjónarkennarar sjá um reglubundna fræðslu um einelti í sínum bekkjum. Til staðar í hverri bekkjarstofu er veggspjald sem sýnir "eineltishringinn". Umræður fara fram um eineltishringinn að minnsta kosti einu sinni á hverju skólaári. 
Skólastjórnendur eru ábyrgir fyrir fræðslu meðal starfsfólks með starfandi eineltisteymi. 

Í eineltisteymi sitja: Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri, Aðalheiður Bragadóttir deildarstjóri, Sigríður Magnúsdóttir deildarstjóri, Steinunn Harpa Jónsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Anna Harðardóttir náms- og starfsráðgjafi.