Brekkuskóli fær Grænfánann

Mánudaginn  25. apríl, á Degi umhverfis, fær Brekkuskóli afhentan Grænfánann í fyrsta sinn. Af þessu tilefni verður athöfn í Íþróttahöllinni kl. 9:45 þar sem nemendur og starfsfólk tekur á móti fánanum. Foreldrar og aðrir velunnarar skólans eru einnig velkomnir. 

Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki samtakanna Foundation for Environmental Education (FEE). Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að FEE. Fáninn er aðeins veittur þeim skólum sem vinna að umhverfismennt og ná árangri og setja sér sífellt ný markmið til að vinna að. Í febrúar sendi skólinn frá sér greinargerð þar sem tíundað var hvað gert hefur verið síðast liðin tvö ár og í mars kom Guðrún Schmidt, starfsmaður Landverndar og skoðaði skólann og spjallaði við nemendur og starfsmenn. Hún var mjög ánægð með það starf sem unnið hefur verið og tilkynnti okkur að við myndum fá Grænfánann.