Samrómur - keppni

 

Í dag, mánudaginn 18. janúar,  kl. 15:00 fer af stað keppni á milli allra grunnskóla á landinu þar sem keppt verður um fjölda setninga sem nemendur lesa inn í Samróm. Samrómur er samstarfsverkefni íslenskra háskóla, fyrirtækja og félagasamtaka þar sem íslenskum röddum er safnað saman til að búa til gagnasafn raddsýna fyrir íslensku sem síðan verður hægt að nota til að þróa tæknilausnir sem nota íslensku. Þetta er mikilvægur þáttur í því að viðhalda íslenskunni þar sem samskipti við tölvur og ýmis tæki eru og verða í auknum mæli raddstýrð.

Við viljum hvetja sem flesta nemendur og aðstandendur þeirra til að taka þátt í keppninni fyrir hönd Brekkuskóla og stuðla með því að íslenskan lifi áfram í stafrænum heimi. Það þarf að byrja á því skrá sig á https://samromur.is/ og nemendur þurfa samþykki forráðamanna. Þegar það er komið er auðvelt að taka þátt og lesa inn setningar. Einhverjir nemendur skráðu sig í dag í skólanum en við viljum endilega að sem flestir skrái sig í dag svo við getum nýtt tíma í skólanum til að lesa inn setningar. Keppninni lýkur 25. janúar og þá kemur í ljós hvaða skóli á landinu stóð sig best.

Nánari upplýsingar um keppnina eru á https://samromur.is/