Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.

Lesarar stóðu sig með stakri prýði og var þetta góð skemmtun.  Fyrir hönd Brekkuskóla munu þau Kristófer Lárus Jónsson og Lilja Helgudóttir keppa í aðalkeppninni sem fer fram í Menntaskólanum á Akureyri þann 4. mars nk. Til vara eru þær Ingunn Rán Bjarnadóttir og Emma Bríet Tómasdóttir.

Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.

Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Lögð hefur verið áhersla á að íslensku máli væri jafnan nokkur sómi sýndur við upphaf keppninnar í 7. bekk, og þá gjarnan fengnir verðlaunahafar frá fyrra ári til að lesa upp. Þær vikur í skólunum, sem helgaðar eru vönduðum upplestri, eru alfarið í höndum kennara.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í febrúar þar sem tveir til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði, sem haldin er í góðum samkomusal í byggðarlaginu í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu, einn, tveir eða þrír úr hverjum skóla, og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega.