Nú styttist í að skólinn hefjist og samkvæmt venju byrjum við á að kennarar, nemendur og foreldrar hittist og ræði saman um komandi vetur. Þið munið fá tölvupóst frá kennurum með upplýsingum um hvernig þið bókið samtal.
Fyrstu skóladagarnir einkennast af hópefli, vinnu við bekkjarsáttmála og útiveru. Þá er nauðsynlegt að rifja upp skólareglur og reglur sem gilda á skólalóðinni á skólatíma. Við þurfum að gera nemendum ljóst að reglur eru settar til þess að auka öryggi allra.
Ákvörðun var tekin í skólaráði Brekkuskóla um að upphaf skóladags frá og með hausti 2025 verði kl. 8:10. Þessi ákvörðun byggir á niðurstöðu kannana sem lagðar voru fyrir forráðamenn og starfsfólk þar sem yfirgnæfandi meirihluti var hlynntur þeirri breytingu að seinka skólabyrjun um 10 mínútur.
Skólahúsnæðið verður því opnað kl. 7:50 í stað kl. 7:40.
Áfram verður gjaldfrjáls hádegismatur fyrir nemendur en skrá þarf nemendur í mat í gegnum skráningarkerfi Völu til þess að hægt sé halda utanum hve margir eru í mat hverju sinni og koma þannig í veg fyrir matarsóun.
Við upphaf skólaársins fá nemendur úthlutað námsgögnum. Mikilvægt er að fara vel með þau og nota þau á ábyrgan hátt. Með því að útvega öllum nemendum námsgögn er stuðlað að jöfnuði, sparnaði og jákvæðum áhrifum á umhverfið. Við hvetjum nemendur til þess að ganga vel um þau gögn sem þeir fá afhent.
Í dag stunda um 410 nemendur nám við skólann og starfsfólk telur um 75 manns. Við bjóðum nýja nemendur, foreldra þeirra og nýtt starfsfólk innilega velkomin. Skólinn er fjölbreytt og öflugt samfélag sem við leggjum metnað í að hlúa að, meðal annars með því að hafa einkunnarorð skólans, menntun, gleði, umhyggja og framfarir að leiðarljósi í daglegu starfi.
Með von um gott samstarf í vetur,
starfsfólk Brekkuskóla
v/Skólastíg | 600 Akureyri kt. 410169-6229 Sími: 414-7900 Frístund sími 414-7979 Netfang: brekkuskoli@akureyri.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 414 7900 / brekkuskoli@akureyri.is