Byrjendalæsi

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð í læsi í 1. -3. bekk. og var fyrst kennd í Brekkuskóla veturinn 2009 - 2010 í 2. bekk.
Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri í samvinnu við skóla á Norðurlandi undir forystu Rósu G. Eggertsdóttur. Viðhorf til náms og kennslu eru í anda hugsmíðahyggju. Áhersla er lögð á fjölbreytni og sveigjanleika í námsaðstæðum barnanna.

Hugtakið læsi hefur lengst af verið tengt lestri og skrift eða lestri og ritun. Hin síðari ár hefur inntak þess víkkað og hugtakið látið taka til hinna ýmsu forma sem málið tekur á sig og hvernig þau tengjast. Í kjölfarið hefur læsi verið notað sem yfirheiti fyrir lestur, ritun, lesskilning/málskilning, tal og hlustun.

Grunnstoðir Byrjendalæsis

  • Lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir
  • Merkingabær viðfangsefni
  • Nám er félagslegt ferli
  • Unnið út frá gæðatexta
  • Einstaklingsmiðun í kennslu
  • Nám án aðgreiningar
  • Samvinna nemenda í námi

Góðar barnabækur eru sá efniviður sem unnið er með í námi og kennslu, jafnt í tæknilegri vinnu með stafi og hljóð sem og vinnu með orðaforða og skilning.

Læsi
Hugtakið læsi hefur lengst af verið tengt lestri og skrift eða lestri og ritun. Hin síðari ár hefur inntak þess víkkað og hugtakið látið taka til hinna ýmsu forma sem málið tekur á sig og hvernig þau tengjast. Í kjölfarið hefur læsi verið notað sem yfirheiti fyrri lestur, ritun, lesskilning/málskilning, tal og hlustun.

 

Mikilvægi læsis
Óumdeilt er í nútímasamfélagi að miklu skiptir að skólar á öllum stigum hlúi sem best að góðri færni allra nemenda í læsi, enda byggir annað nám á góðri lestrarfærni. Því er mikið í húfi að vel takist til í náminu þar sem framtíðarmöguleikar einstaklingsins eru að miklu leyti komnir undir því að skólagangan verði farsæl. Mikilvægt er að miðlun þekkingar í formi þróunar- og nýbreytniverkefna, ráðgjöf, handleiðslu, fræðslu og stuðnings við skólafólk sé aðgengileg.

Þróunarstarf
Samhliða þróun í Byrjendalæsi hefur verið mótað starfsþróunarlíkan sem tekur til tveggja ára. Á þeim tíma fá kennarar kennslu og öflugan stuðning við að tileinka sér aðferðina. (Úr kynningarbæklingi Skólaþróunarsviðs HA um Byrjendalæsi). Allir kennarar á yngsta stigi Brekkuskóla hafa lokið starfsþróunarþjálfun Byrjendalæsis.

Læsisteymi
Teymi kennara og skólastjórnenda skólans mun vinna að gerð þriggja ára framkvæmdaáætlunar er varðar læsi. Þegar hefur verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á Lestur og lesskilning fyrsta framkvæmdaárið, skólaárið 2015 - 2016. Fleiri skólar hafa ákveðið að vera með sömu áherslu og mun Brekkuskóli vinna í nánu samstarfi við þá skóla.

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri mun starfa með teyminu, en miðstöðin vinnur að mótun læsisstefnu fyrir leik- og grunnskólana á Akureyri í samstarfi við skólana. Læsisstefnan sem verið er að móta ber heitiðLitbrigði læsis og slagorð þess er Læsi er lykill. Starfshópur á vegum Skóladeildar hefur þegar skilað af sér grunnundirbúningsvinnu fyrir stefnuna sem fólst í að greina hvað hefur þegar verið gert í skólunum og koma með tillögur að áætlun fyrir fyrstu skref stefnunnar. Teymisvinnan er dæmi um framkvæmd þeirrar áætlunar.

Læsisþing
Læsisþing verður haldið í Brekkuskóla á vegum Skóladeildar þann 13. ágúst 2015. Allir kennarar í grunnskólum Akureyrar eru boðaðir á þingið. Þingið er liður í að bæta árangur í læsi við grunnskóla Akureyrarbæjar.

(Síðast uppfært í júní 2015)